Hvað er múslimi?

18. nóvember 2015

Spurning

Hvað er múslimi?

Salaam alaykum!

Þakka þér fyrir þessa spurningu.  Múslimi er manneskja sem er islamstrúar.  Við höfum áður fjallað um Islam í greininni okkar Hvað er Islam?.  Þú skalt því áður en lengra er haldið lesa þá grein en hún fjallar um fimm stoðir Islams, trúarhátíðir og Kóraninn.

Fjölbreyttur hópur fólks

Spurningin “Hvað er múslimi” er svo aðeins annað mál.  Vissulega, er múslimi, eins og fyrr greinir, manneskja sem aðhyllist Islam, en þrátt fyrir það geta múslimar verið alls konar rétt eins og kristnir geta verið alls konar.  Það getur til dæmis verið mikill munur á kristnum Íslendingi sem pælir lítið í Biblíunni en lætur skíra börnin sín og svo heittrúuðum kristnum einstaklingi sem fylgir orðum Biblíunnar af nákvæmni.  

Það er því ekki bara hægt að alhæfa og segja: Nákvæmlega svona er múslimi. 23% heimsins eru múslimar og því einna víst að fjölbreytnin sé mikil.  Sumir múslimar eru strangtrúaðir, ganga í búrkum, neyta ekki áfengis og biðja fimm sinnum á dag á meðan aðrir múslimar ganga hvorki í búrku, né með slæðu um hárið og fara ekki eins nákvæmlega eftir boðum og bönnum Kóransins. Sömuleiðis eru fleiri rit, kölluð hadith, sem byggja að baki íslamskri trúarkenningu og bæði er misjafnt milli múslima hvaða hluti þeirra telst áreiðanlegur en sömuleiðis eru þau túlkuð misjafnlega.

Múslimar skiptast svo í nokkra söfnuði, rétt eins og kristni skiptist í lúterska kirkju (eins og Þjóðkirkjan á Íslandi er), kaþólska kirkju (sem að páfinn er yfir) og fleiri söfnuði sem túlka Biblíuna á mismunandi vegu eða leggja áherslu á mismunandi hluti.  Stærstu söfnuðir múslima eru Súnní og Shi’a sem fjallað er um í greininni “Hvað er Islam?”.

Er munur á múslimum og aröbum?

Sumir halda að múslimar og arabar sé það sama og gera sér ekki grein fyrir muninum.  Flestir arabar eru islamstrúar en alls ekki allir múslimar eru arabar.  Kóraninn er skrifaður á klassíska arabísku, sem er forn-arabíska og því geta ekki allir múslimar skilið hana, þó að margir læri vers utan að.  Þrátt fyrir þetta eru mjög margir múslimar sem ekki tala arabísku, hvorki klassíska né nútíma, enda eru stærstu hópar múslima Indónesar, Pakistanar, Indverjar og Bangladeshbúar, en engin þessara þjóða talar arabísku.  Flestir arabar eru islamstrúar, en 7-10% eru kristnir.

Tótalkveðjur

 

18. nóvember 2015

Ertu með spurningu?

Full nafnleynd og 100% trúnaður.

 

Mest lesið

Einkalíf |  06.04.2016
Vinna |  10.05.2017
Einkalíf |  02.05.2016
Vinna |  20.02.2015